Hópurinn Orkan okkar hefur hrint af auglýsingaherferð gegn þriðja orkupakkanum. Fyrstu auglýsingarnar eru þegar komnar í birtingu en þegar fjármunir berast verða fleiri auglýsingar víðar birtar.
„Við eigum ekki mikla peninga. Þetta eru bara frjáls félagasamtök og við erum að safna styrkjum frá almenningi og þátttakendum í þessum samtökum til þess að geta kostað þessar birtingar," segir Frosti Sigurjónsson, einn talsmanna hópsins.
Frosti líkir fyrirkomulaginu við auglýsingagerferð Advice-hópsins sem barðist gegn Icesave en þar var hann sjálfur á meðal stofnanda. Auglýsingunum nú er ekki síst ætlað að beina fólki á undirskriftasöfnun á vefsíðunni. Hann segir að um sex þúsund undirskriftir hafi safnast á einni viku. Þær verða afhentar þingi og síðar forseta verði þriðji orkupakkinn samþykktur.

„Já, ég myndi segja það í svona stóru máli. Þjóðin hefur ekki fengið að ræða sig til að fjalla um það nægilega vel," segir Frosti.
Auglýsingar eru þegar komnar í birtingu á skiltum við Hlíðarenda og Fífuna í Kópavogi. Þegar fjármunir safnast verður farið í víðtækari birtingar í fjölmiðlum.
„Ef það verður einhver afgangur rennur það til líknarmála. Þetta er bara eitt mál. Þetta eru ekki stjórnmálasamtök. Við erum bara að vekja athygli á einu máli," segir Frosti.
Samtökin Nej til EU fóru í sambærilega baráttu í Noregi í fyrra áður en þriðji orkupakkinn var samþykktur þar í landi. Frosti segir að hópurinn muni ekki taka við styrkjum frá þeim.
„Við viljum ekki fá fjármagn erlendis frá. Við Íslendingar erum að taka þetta mál upp."