Tricia Newbold, embættismaður í starfsmannaöryggisdeild Hvíta hússins, gaf eftirlitsnefnd fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, skýrslu í síðasta mánuði en hún er sögð hafa lengi reynt að koma athugasemdum sínum við hvernig starfsmönnum voru veittar öryggisheimildir á framfæri innan Hvíta hússins. Hún hefur starfað í Hvíta húsinu í tíð fjögurra ríkisstjórna, allt frá því að Bill Clinton var forseti.
Hún fullyrðir að hún og samstarfsmenn hennar hafi hafnað 25 umsóknum um öryggisheimild af ýmsum ástæðum, þar á meðal vegna „erlendra áhrifa, hagsmunaárekstra, vafasamrar persónulegrar hegðunar, fjárhagsvandræða, fíkniefnaneyslu og glæpsamlegrar hegðunar“, að sögn New York Times.
Yfirboðarar Newbold hafi hins vegar virt álit sérfræðinganna að vettugi og veitt umsækjendunum öryggisheimildirnar sem veita opinberum starfsmönnum aðgang að gögn sem leynd hvílir yfir. Meðhöndlun þeirra á umsóknunum hafi ekki alltaf verið í þágu þjóðaröryggis Bandaríkjanna.
Umsækjendurnir hafa ekki verið nafngreindir en í hópi þeirra eru sagðir tveir núverandi háttsettir embættismenn í Hvíta húsinu auk verktaka og annarra starfsmanna sem vinna á skrifstofu forsetans.
Sakar fyrrverandi skrifstofustjóra um að reyna að niðurlægja sig
Bandarískir fjölmiðlar hafa áður greint frá því að Trump forseti hafi persónulega gefið skipun um að Jared Kushner, tengdasonur hans og einn nánasti ráðgjafi, fengi öryggisheimild þrátt fyrir að sérfræðingar Hvíta hússins teldu hann ekki uppfylla skilyrði til þess í fyrra. Miklar áhyggjur voru sagðar af því að reynsluleysi og flókið net viðskiptahagsmuna gerðu erlendum ríkjum auðvelt að hafa áhrif á Kushner. Öryggisheimild hans var lækkuð um tíma.„Mér fannst að núna sé þetta síðasta von mín um að koma heildum aftur á skrifstofuna okkar,“ sagði Newbold við þingnefndina samkvæmt minnisblaði sem demókratar sem stýra eftirlitsnefndinni sendu frá sér í gær.
Demókratar hafa krafið Pat Cipollone, yfirlögfræðing Hvíta hússins um gögn sem tengjast því hvernig starfsfólki var veitt öryggisheimild og að starfsmenn Hvíta hússins gæfu nefndinni kost á viðtali. Cipollone hefur haldið því fram að forsetinn hafi óskorðað vald til að samþykkja eða synja fólki um öryggisheimildir og því hafi Bandaríkjaþing ekkert með það að setja fram kröfur á hendur Hvíta hússins.
Newbold var leyst tímabundið frá störfum launalaust í Hvíta húsinu eftir að greint var frá öryggisheimild Kushner en er sögð komin aftur til starfa. Hún hefur sakað Carl Kline, fyrrverandi skrifstofustjóra deildarinnar hennar, um að hafa mismunað sér og beitt hana hefndaraðgerðum sem hafi verið ætlað að niðurlægja hana. Þannig hafi Kline látið færa gögn og bjöllu sem starfsmenn hringdu til að komast inn á skrifstofuna þannig að Newbold, sem er dvergvaxin, næði ekki í hana.