Handbolti

ÍBV sótti sigur á Ásvöllum | Ljóst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ester átti góðan leik í kvöld.
Ester átti góðan leik í kvöld. vísir/ernir
Síðasta umferðin í Olís-deild kvenna fór fram í kvöld og nú er orðið ljóst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni sem hefst um komandi helgi.

ÍBV gerði góða ferð á Ásvelli og vann fjögurra marka sigur, 30-26, eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, 16-15. Sigurinn gerir það að verkum að ÍBV tekur þriðja sætið og Haukar enda í því fjórða

Ester Óskarsdóttir gerði sex mörk úr níu skotum fyrir ÍBV en Sunna Jónsdóttir bætti við fimm mörkum. Berta Rut Harðardóttir skoraði átta mörk fyrir Hauka.

Selfoss vann sinn annan leik í röð er liðið vann fjögurra marka sigur á HK, 30-26, en Selfoss var 16-11 yfir í hálfleik. Selfoss vann því síðustu tvo leikina eftir að hafa fallið niður um deild.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var frábær í liði Selfoss en hún skoraði þrettán mörk. Í liði HK skoraði Elva Arinbjarnar sex mörk.

Fyrir norðan vann Stjarnan sex marka sigur á KA/Þór, 27-21. Staðan í hálfleik var 12-10 fyrir Stjörnuna en Stjarnan endar í sjötta sætinu. Nýliðarnir í KA/Þór enda í því fimmta.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði átta mörk fyrir Stjörnuna en Hildur Öder Einarsdóttir varði vel í markinu. Martha Hermannsdóttir var í sérflokki hjá KA/Þór en hún skoraði tíu mörk.

Í úrslitakeppninni er því ljóst að Valur spilar við Hauka og ÍBV mætir Fram en úrslitakeppnin hefst um næstu helgi.

Lokaniðurstaðan í deildinni:

Valur 34 stig

Fram 33 stig

ÍBV 27 stig

Haukar 23 stig

KA/Þór 19 stig

Stjarnan 15 stig

HK 9 stig

Selfoss 8 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×