Gengi hlutabréfa Icelandair hefur styrkst töluvert frá opnun markaða í morgun. Sem stendur nemur hækkunin um 6,88 prósentum í 132 milljón króna viðskiptum.
Ætla má að rekja megi þessa hækkun til fregna morgunsins af 5,6 milljarða kaupum bandaríska fjárfestingasjóðsins PAR Capital Management á 11,5 prósenta hlut í flugfélaginu.
Önnur félög í Kauphöllinni hafa að sama skapi hækkað, flest á bilinu 1 til 4 prósent - að frátöldum bréfum í Arion banka sem hafa lækkað um 5,5 prósent í morgun í 6,2 milljarða króna viðskiptum.
Þessa sveiflu má að sama skapi rekja til stórra frétta en í gær var greint frá því að stærsti einstaki eigandi í Arion banka hefði í hyggju að selja 10 prósent hlut í bankanum. Miðað við markaðsvirði í gær var virði þess hlutar um 15,3 milljarðar króna.
Þá hefur krónan styrkst lítillega í morgun gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum.
Icelandair rís

Tengdar fréttir

Bandarískur fjárfestingarsjóður kaupir 11,5 prósent í Icelandair
PAR Capital Management, fjárfestingarsjóður sem rekinn er í Boston í Bandaríkjunum hefur gert bindandi samkomulag um að kaupa 11,5 prósenta hlut í Icelandair Group.