Flugfélögin tvö sem boðað hafa tíðari komur til landsins, Wizz Air og Transavia, virðast hafa brugðist hratt við falli WOW air.
Bæði félögin tilkynntu fyrr í þessari viku að þau ætli sér að „stökkva inn í gatið sem WOW skildi eftir sig.“ Wizz Air mun fljúga daglega til Lundúna og Transavia hyggst fljúga þrisvar í viku milli Keflavíkur og Schiphol-flugvallar í Amsterdam. Transavia hefur að sama skapi gefið út að stefna flugfélagsins sé að fjölga ferðum milli Íslands og umheimsins þegar fram líður, en félagið gerir ráð fyrir að flytja um 28 þúsund farþega milli Hollands og Íslands í sumar.
Eftir að WOW tilkynnti um rekstrarstöðvun á fimmtudaginn fyrir sléttri viku biðu flugfélögin ekki boðanna, ef marka má ummæli talsmanna þeirra. Claudia Metz, upplýsingafulltrúi hins hollenska Transavia, segir í samskiptum við Vísi að flugfélagið hafi þannig sett sig í samband við Keflavíkurflugvöll strax í síðustu viku, þegar ljóst var að WOW air hafði lagt upp laupana.
Sjá einnig: Hollendingar stökkva inn í gatið sem WOW skilur eftir sig
Aðspurð um hvort Transavia hafi fylgst náið með rekstrarvandræðum WOW air síðustu mánuði svarar Metz á almennum nótum. „Sem flugfélag fylgjumst við ætíð með þróuninni á flugmarkaði, af þeim sökum höfum við ætíð auga með öðrum flugfélögum,“ segir Metz.
Andras Rado, blaðafulltrúi ungverska flugfélagsins Wizz Air, segir það sama hafa verið uppi á teningnum hjá þeim. Brugðist hafi verið hratt við falli WOW Air og flugferðum Wizz frá Lundúnum og Varsjá til Keflavíkur fjölgað. Þá standi til að Wizz hefji beint áætlunarflug til Kraká í Póllandi í sumarlok.
„Ein af ástæðum velgegni okkar er hversu hratt við getum brugðist við breytingum á markaðnum. Við fórum því í gang um leið og WOW air varð gjaldþrota,” segir Rado í samskiptum við Túrista.
Þrátt fyrir að flugfélög virðist ekki þurfa langan umhugsunarfrest til að stökkva á tækifæri, eins og þau sem mynduðust við fall WOW air, segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, að ekkert fleira í þeim efnum sé í hendi. Isavia muni þó halda áfram að sækja ráðstefnur þar sem rætt er við áhugasöm flugfélög.
