Handbolti

Seinni bylgjan: Sú besta saknaði stórleikjanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íris Björk Símonardóttir, markvörður Vals, var besti leikmaður seinni hluta Olís-deildar kvenna að mati Seinni bylgjunnar. Hún var einnig valin best í fyrri hlutanum. Valskonur eru ríkjandi bikar- og deildarmeistarar og eru komnar í 1-0 í einvíginu gegn Haukum í undanúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn. Annar leikur liðanna fer fram í kvöld.

Eftir tveggja ára frí frá handbolta gekk Íris Björk í raðir Vals í sumar. Hún lék alla 22 leiki Vals í Olís-deildinni og í þeim varði hún 13,6 skot að meðaltali, eða 42,8% þeirra skota sem hún fékk á sig. Þá var Íris Björk með 1,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Íris Björk mætti í settið í uppgjörsþætti Seinni bylgjunnar í gærkvöldi.

„Allar mínar bestu vinkonur eru í handboltanum og lífið hefur snúist svo lengi um hann. Maður saknaði stórleikjanna og allra þessara augnablika,“ sagði Íris Björk um ástæðu þess að hún tók skóna af hillunni.

Valur fékk á sig fæst mörk allra í Olís-deildinni og Íris Björk hrósaði varnarleik liðsins.

„Þetta er klikkuð vörn. Eins og allir sjá er Anna Úrsúla [Guðmundsdóttir] svindlleikmaður. Hún er rugluð, ekki bara út frá handboltahæfileikum heldur er hún hjartað í öllum liðum sem hún er í,“ sagði Íris Björk um Önnu Úrsúlu. Þær hafa leikið lengi saman og urðu m.a. tvisvar Íslandsmeistarar með Gróttu.

Jóhann Gunnar Einarsson spurði Írisi Björk hver erfiðasti mótherji hennar væri.

„Ég á ekki að segja þetta því við erum að spila á móti þeim en Berta [Rut Harðardóttir] hefur haft mig svolítið í vasanum á þessu tímabili. Í gegnum tíðina hefur Ester Óskarsdóttir reynst mér erfið,“ sagði Íris Björk.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×