Í þáttunum gefst FH-ingum og öðrum áhugamönnum um íslenskan fótbolta tækifæri til að skyggnast á bak við tjöldin hjá risanum í Hafnarfirði en myndavélin er bæði inn í klefa og í þjálfaraherberginu.
„Í rauninni þróaðist hugmyndin út frá því að við Biggi og Axel [starfsmenn FH] vorum að ræða um að gera einhver 10-15 sekúndna lifandi myndbönd til að auglýsa leiki yfir sumartímann. Bara tæklingar í slow motion og einhver hreyfigrafík með. Þetta þróaðist yfir í það hvort við gætum sýnt eitthvað sem áhorfendur sjá ekki vanalega eins og liðið í klefanum fyrir leik.“
„Þegar Axel nefndi síðan að Jónatan Ingi, sem var nýkominn í FH frá AZ Alkmaar og allir héldu að væri að lifa einhverjum glamúr boltalífsstíl, væri alltaf upp í Kaplakrika að þvo af liðinu og pumpa í bolta þá föttuðum við að það væri endalaust af svona litlum sögum sem væru gott TV. Svo við ákváðum bara keyra á þetta með hjálp frá okkar mönnum í Sony,“ segir Freyr.
Hann stefnir á að gera tíu þætti sem frumsýndir verða á Vísi á föstudögum en fyrsta þáttinn í nýju seríunni má sjá hér að ofan.