Erlent

Dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að valda dauða 16 manns

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jaskirat Singh Sidhu hefur verið dæmdur til átta ára fangelsisvistar.
Jaskirat Singh Sidhu hefur verið dæmdur til átta ára fangelsisvistar. Kayle Neis/AP
Kanadískur maður hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að valda dauða 16 manns með ógætilegu aksturslagi sínu í bænum Saskatchewan í Kanada.

Maðurinn, Jaskirat Singh Sidhu, játaði sök í janúar og gekkst við alls 29 ákæruliðum um ógætilegt aksturslag sem olli dauða eða líkamstjóni. Sagðist hann hafa játað á sig sök þar sem hann hafi ekki viljað gera hlutina verri með réttarhöldum.

Saksóknarar í málinu fóru fram á tíu ára fangelsisdóm yfir hinum þrítuga Sidhu en lögmenn hans höfðu ekki mælt með ákveðinni refsingu. Þeir vísuðu þó til svipaðra mála þar sem dómar voru frá 18 mánuðum til fjögurra ára í fangelsi.

Slysið átti sér stað í apríl síðastliðinn þegar hokkíliðið Humboldt Broncos var á leið í keppnisleik. Sendiferðabíll Sidhu skall þá á hlið rútunnar með þeim afleiðingum að leikmenn liðsins, starfsmenn, útvarpsmaður og bílstjóri rútunnar létust.

Enging ummerki um tilraunir Sidhu til að bremsa fundust á veginum sem leiddi að gatnamótunum þar sem áreksturinn varð. Rútan keyrði yfir gatnamótin og það gerði Sidhu sömuleiðis á flutningabíl sínum, en hann átti þó að nema staðar samkvæmt lögum. Því fór sem fór og bíll Sidhu hafnaði í hlið rútunnar. Talið er að Sidhu hafi verið á um það bil 96 kílómetra hraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×