Hagnaður Stefnis, dótturfélags Arion banka, nam 897 milljónum króna á síðasta ári og dróst saman um 46 prósent frá fyrra ári þegar hann var 1.680 milljónir króna, að því er fram kemur í nýbirtum ársreikningi eignastýringarfyrirtækisins.
Heildartekjur Stefnis, sem eru fyrst og fremst umsýslu- og árangurstengdar þóknanir, voru 2.316 milljónir króna í fyrra og drógust saman um liðlega 30 prósent frá árinu 2017. Þá voru rekstrargjöld samanlagt 1.202 milljónir króna á síðasta ári borið saman við 1.169 milljónir króna árið 2017.
Eignir í virkri stýringu Stefnis, sem er stærsta eignastýringarfyrirtæki landsins, lækkuðu á árinu um tæpa 16 milljarða króna eða úr tæpum 347 milljörðum í nær 331 milljarð króna en í skýrslu stjórnar segir að það skýrist meðal annars af innlausnum í sjóðunum Stefni ÍS-15 og Stefni – Lausafjársjóði.
