Þremur starfsmönnum ferðaþjónustufyrirtækisins Gray Line hefur verið sagt upp. Þetta staðfestir Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri fyrirtæksins, í samtali við Vísi.
Rekstrarumhverfi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja er nokkuð breytt eftir fréttir gærdagsins þar sem greint var frá gjaldþroti flugfélagsins WOW air. Þannig sögðu Kynnisferðir upp 59 manns í gær.
Þórir hjá Gray Line segir að uppsagnirnar nú tengist ekki falli WOW air sérstaklega. Í ljósi stöðunnar almennt og þar sem reksturinn sé erfiður skoði fyrirtækið hins vegar stöðugt bókunarstöðuna fram í tímann og grípi til aðgerða ef bókunarstaðan gefur tilefni til.
„Við höfum ekki efni á eins og áður að vera með starfsmenn á lager. Mér sýnist að við þurfum að fækka um þrjá starfsmenn úr þeim tvö hundruð manna hópi sem vinnur hjá félaginu,“ segir Þórir.
