Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Sigurður sagði að almennt hefði gengið vel að aðstoða erlenda farþega WOW air sem setið hafa fastir á Íslandi.
„Það hefur gengið framar vonum. Það eru fjölmörg flugfélög, ein sjö, sem taka þátt í þessu. Icelandair langstærst og ég vil hrósa þeim öllum fyrir að standa svona vel að verki.“
Þá hafi einkum gengið vel að ferja fólk til Evrópu en einhverjir hnökrar hafi verið á fólksflutningum til Norður-Ameríku. Tekist verði á við vandann ef þörf er á.
„Okkar hópur er að meta það og ef það reynist þannig að það þurfi að hjálpa til þá erum við tilbúnir að senda kannski eina leiguvél, hvort sem það er á sunnudag, mánudag eða síðar,“ sagði Sigurður Ingi.
Þá hafi strandaglóparnir einnig kost á að fljúga til Evrópu og nýta sér björgunarfargjöldin þaðan til Bandaríkjanna. Sigurður Ingi sagði jafnframt að vel hefði gengið að koma Íslendingum heim sem áttu bókað flug með WOW air.
Viðtalið við samgönguráðherra má sjá í spilaranum hér að neðan. Það hefst á mínútu 6:12.