Innlent

Fleiri mislingasmit ekki verið staðfest

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Um helgina voru um 500 manns bólusettir á Austurlandi og um 2500 á höfuðborgarsvæðinu.
Um helgina voru um 500 manns bólusettir á Austurlandi og um 2500 á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm
Ekki hafa greinst ný mislingatilfelli á landinu síðan fimmta tilfellið var staðfest á föstudag. Þetta kom fram á samráðsfundi sóttvarnaryfirvalda í morgun, mánudaginn 11. mars. Samtals hafa um fimmtíu sýni verið send í greiningu á Landspítala en áfram verður fylgst með stöðu mála.

Frá þessu er greint á vef Landlæknisembættisins. Þar segir jafnframt að bólusetningarátak á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu hafi gengið afar vel. Um helgina voru um 500 manns bólusettir á Austurlandi og um 2500 á höfuðborgarsvæðinu. Þá er von á meira bóluefni til landsins um miðja þessa viku.

Áfram verður bólusetning í boði á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu fyrir forgangshópa. Þeir eru:

  1. Allir sem eru óbólusettir og fæddir á bilinu 1. janúar 1970 – 1. september 2018 (6 mánaða – 49 ára)
  2. Þeir einstaklingar sem útsettir hafa verið fyrir mislingasmiti ásamt þeirra nánasta umgangshópi.
Bólusetning fyrir aðra hópa verður auglýst um leið og hægt er en unnið er að bólusetningaráætlun fyrir allt landið í samvinnu við umdæmis- og svæðislækna sóttvarna. Þá má nálgast upplýsingar um staðsetningu bólusetninga á vef Heilbrigðisstofnunar Austurlands og á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Samtals hafa fimm einstaklingar greinst með mislinga frá því 18. febrúar síðastliðinn, tvö börn og þrír fullorðnir. Mislingasmit barst hingað til lands með manni sem ferðaðist heim frá Filippseyjum um miðjan febrúar.

Bryndís Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir ræddi mislingafaraldinn í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun. Viðtalið má heyra í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Fimmta mislingatilfellið staðfest

Í dag staðfesti veirufræðideild Landspítala nýtt mislingatilfelli og er það fimmta tilfellið sem staðfest hefur verið frá því 18. febrúar síðastliðinn.

Bólusett fyrir mislingum í dag

Heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og á Austurlandi bjóða upp á bólusetningar fyrir mislingum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×