Að minnsta kosti sjö nemendur og einn starfsmaður skóla nærri Sao Paulo í Brasilíu féllu þegar tveir hettuklæddir unglingspiltar hófu skothríð þar í morgun. Lögreglan segir að morðingjarnir hafi svipti sig lífi eftir árásina.
Skothríðin hófst þegar nemendur í ríkisskóla í Suzano nærri Sao Paulo voru í frímínútum klukkan 9:30 að staðartíma, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Að minnsta kosti tíu særðust í árásinni auk þeirra sem féllu. Nemendur við skólann eru á aldrinum sex til átján ára.
Lögreglan segir að árásarmennirnir hafi verið fyrrverandi nemendur við skólann en tilefni árásarinnar liggi ekki fyrir. Reuters-fréttastofan segir að skotárás hafi átt sér stað nærri skólanum skömmu fyrir árásina í morgun. Ekki sé ljóst hvort að þær tengist.
Þó að morð með skotvopnum séu algeng í Brasilíu eru skólaskotárásir af þessu tagi fátíðar þar í landi.
Tveir byssumenn myrtu börn í skóla í Sao Paulo
Kjartan Kjartansson skrifar
