Repúblikanar eru með 53-47 meirihluta.
Áður hafði frumvarpið verið samþykkt í fulltrúadeildinni, þar sem Demókrataflokkurinn er með meirihluta.
Þessi uppreisn þingmanna Repúblikanaflokksins gegn forsetanum veldur því að hann mun þurfa að beita neitunarvaldi sínu í fyrsta sinn. Trump sat ekki á viðbrögðum sínum eftir að atkvæðagreiðslunni í öldungadeildinni lauk.
VETO!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 14, 2019
Þá sagðist Trump þakka þeim „sterku Repúblikönum“ sem hafi kosið að styðja við öryggi á landamærunum og byggingu múrs þar.
Í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar sagði háttsettur starfsmaður Hvíta hússins, samkvæmt AP fréttaveitunni, að forsetinn myndi ekki gleyma þeim þingmönnum sem greiddu atkvæði með frumvarpinu. Þá sérstaklega þegar kæmi að fjáröflun eða annars konar hjálp fyrir kosningar.
Þingkonan Susan Collins, sem stendur frammi fyrir kosningum á næsta ári, sagðist vera viss um að Trump yrði ekki ánægður með atkvæði hennar. Hún væri þó þingmaður og starf hennar væri að standa vörð um stjórnarskrá Bandaríkjanna. Nokkrir Repúblikanar sem sögðust vera á móti neyðarástandsyfirlýsingu Trump tóku þó þá ákvörðun að greiða atkvæði gegn frumvarpinu.
Þá er það einnig niðurlægjandi með tilliti til þess að í gær samþykkti þingið einnig að draga úr stuðningi Bandaríkjanna við Sádi-Arabíu í stríðinu í Jemen. Trump hefur einnig heitið því að beita neitunarvaldi gegn því frumvarpi, en ríkisstjórn hans hefur veitt Sádum mikinn stuðning.
Tveir þriðju þingmanna beggja þingdeilda þurfa að greiða atkvæði með frumvörpum svo forsetinn geti ekki beitt neitunarvaldi sínu gegn þeim. Bæði frumvarpinu fengu ekki þann fjölda atkvæða sem til þarf.
Trump fékk ekki fjárveitingu frá þinginu þegar Repúblikanar stjórnuðu báðum deildum þess síðustu tvö ár og því lýsti hann yfir neyðarástandi svo hann gæti sótt fé í neyðarsjóði hersins til að reisa múr á landamærunum.
Forsetar Bandaríkjanna hafa lýst yfir neyðarástandi 58 sinnum frá því lög þar að lútandi voru sett árið 1976. Þetta er þó í fyrsta sinn sem það er gert með því markmiði að nálgast fjármuni sem þingið hefur neitað að veita forsetaembættinu.