Aðgerðarsinninn Oyub Titiev sem barist hefur í áraraðir fyrir mannréttindum í Tjetjeníu í Rússlandi ásamt samtökum sínum Memorial hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir vörslu eiturlyfja. Titiev og Amnesty International hafa gagnrýnt dóminn og sagt hann vera pólitískan. BBC greinir frá.
Titiev var handtekinn í janúar í fyrra eftir að hafa verið stöðvaður af lögreglu sem kvaðst þurfa að skoða skilríki hans. Lögreglan fann við skoðun kannabis í bílnum og handtóku því hinn 61 árs gamla Titiev fyrir vörslu eiturlyfja.
Dómur féll í málinu í bænum Shali og eftir langa tölu dómara kvaðst hann hafa samþykkt kröfur ákæruvaldsins og dæmdi Titiev í fjögurra ára fangelsi.
Titiev hefur sagt málið vera uppspuna og vill meina að lögreglan hafi komið fíkniefnunum fyrir í ökutæki sínu. Titiev er leiðtogi mannréttindahópsins Memorial í sjálfstjórnarhéraðinu Tjetjeníu sem stýrt er af Ramzan Kadyrov. Fyrirrennari Titiev í leiðtogastólnum, Natalia Estemirova var rænt og hún myrt árið 2009.
Memorial hefur undanfarin ár rannsakað brot tjetjenskra stjórnvalda á borgurum sínum, þar á meðal ofsóknir gegn samkynhneigðum sem hafa mátt þola pyntingar, sakfellingar og mannrán.
Samtökin Amnesty International gaf út yfirlýsingu í kjölfar dómsins og lýsti yfir vonbrigðum sínum
„Með því að sakfella Titiev, þrátt fyrir sönnunargögn sem bentu til sýknu, hefur rétturinn sýnt fram á hversu meingallað rússneska réttarkerfið er,“ sagði í yfirlýsingunni.
Mannréttindaleiðtogi fangelsaður í Tjetjeníu
Andri Eysteinsson skrifar
