Skoðun

Sannir íþróttamenn

Haukur Örn Birgisson skrifar
Það er eitthvað spennandi við UFC-bardagakeppnina, á einhvern viðbjóðslega hráan og frumstæðan hátt. Þrátt fyrir að hafa fylgst lítillega með undanfarin ár, hef ég alltaf haft blendnar tilfinningar gagnvart þessari „íþrótt“. Ég nota gæsalappir því ég er ekki viss um að þetta sé íþrótt. Mér finnst svo margt vanta upp á, til að svo geti verið. Helst má þar nefna skort á íþróttamannslegri hegðun.

Virðingin gagnvart mótherjanum og auðmýktin gagnvart keppninni sjálfri er engin. Niðurlæging mótherjans, á sérstökum blaðamannafundum fyrir keppni, virðist hluti af handritinu. Þetta er ekkert annað en kjánalegt og á ekkert skylt við framkomu í öðrum íþróttum. Allt fyrir sjónvarpsáhorf, geri ég ráð fyrir. Kannski er ég bara orðinn miðaldra.

Nema hvað. Ég var að koma af fótboltamóti með syni mínum. Hann er 9 ára. Eftir að hafa tapað fyrstu fimm leikjum mótsins voru félagarnir að gera sig klára fyrir leik á móti Fjarðabyggð. Leikmenn beggja liða spjölluðu saman fyrir leikinn og ég lá á hleri. „Eruð þið ekki búnir að tapa öllum leikjunum ykkar?“ spurði einn Austfirðingurinn. „Jú,“ svöruðu mínir menn. „Þið eruð þá líklegast í neðsta sæti riðilsins, með núll stig,“ sagði annar, án nokkurra vandræða með samlagninguna.

„Við erum í fjórða sæti en munum fara upp í þriðja sæti ef við vinnum ykkur,“ sagði þriðji stuttlingurinn að austan. Mínir menn þurftu ekki Austfirðingana til að átta sig á stöðunni. Þeir kipptu sér samt ekkert upp við þetta og það var fullkomin ró yfir samtalinu. Hvorki hroki né stælar. Samtalið var barnslega einlægt og virðingarvert. Hlutirnir voru ræddir eins og þeir lágu fyrir og hvorugt lið óskaði hinu slæms gengis. Þar fóru sannir íþróttamenn.




Skoðun

Sjá meira


×