Innergex eignaðist sem kunnugt er 54 prósenta hlut í HS Orku, sem á 30 prósenta hlut í Bláa lóninu, þegar yfirtaka orkufyrirtækisins á Alterra Power gekk í gegn þann 6. febrúar í fyrra. Upplýst er í ársskýrslu kanadíska fyrirtækisins að Bláa lónið hafi hagnast um ríflega 2,6 milljarða króna á umræddu tímabili, frá 6. febrúar til 31. desember í fyrra, en heildarafkoma ferðaþjónustufyrirtækisins var á sama tíma jákvæð um tæplega 800 milljónir króna. Þess má geta að hagnaður Bláa lónsins var um 4,2 milljarðar króna árið 2017.

Á fundi með fjárfestum í tilefni af ársuppgjöri Innergex í liðinni viku sögðust stjórnendur félagsins vera ánægðir með hve vel söluferlið á 54 prósenta hlut þess í HS Orku gengi. Áhugi fjárfesta væri greinilega „mjög mikill“.
Innergex bauð hlutinn til sölu síðasta haust, eins og greint var frá í Markaðinum, en gróflega áætlað gæti virði hlutarins verið í kringum þrjátíu milljarðar króna.
Forsvarsmenn kanadíska félagsins kváðust sáttir við þær viðræður sem nú væru í gangi og vonuðust til þess að geta sagt frekari fregnir af sölunni á næstunni, jafnvel á næstu vikum.
Heildarafkoma HS Orku var neikvæð um 3,1 milljarð króna frá 6. febrúar til 31. desember í fyrra, eins og fram kemur í ársskýrslu Innergex, en aðlöguð EBITDA íslenska orkufyrirtækisins var jákvæð á sama tímabili um 2,5 milljarða króna.