Landsamtök íslenskra stúdenta, í samstarfi við Unga umhverfissinna og Samband íslenskra framhaldsskólanema, stóðu fyrir hádegisverkfalli fyrir loftslagið þriðja föstudaginn í röð. Skipuleggjendur telja að um 300 manns hafi tekið þátt í verkfallinu í dag og margir grunnskólanemar. Skiptust aðilar á að taka til máls, lýsa yfir áhyggjum sínum og krefja stjórnvöld um aðgerðir.
Stefnt er að því að mótmæla aftur næsta föstudag með kröfugöngu sem mun ganga frá Hallgrímskirkju og niður að Austurvelli þar sem haldinn verður kröfufundur. Verður þá mótmælt samtímis á alþjóðavísu. Verkfallshryna þessi er innblásin af skólamótmælum Gretu Thunberg, Svíans unga, sem hafa vakið alþjóðlega athygli síðustu misseri.
Í samtali við fréttastofu sagði Sigurður Thorlacius, ritari Unga umhverfissinna, að mótmælin hafi farið vel fram og aðstandendur séu ánægðir með útkomuna. Hann kvaðst þó alltaf vilja sjá fleiri styðja málstaðinn.
Fulltrúar samtakanna sem standa að baki mótmælunum funduðu í vikunni með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra. Sigurður sagði ráðherra hafa verið mjög móttækilegan fyrir kröfum og hugmyndum samtakanna og sammála þeim að mestu leyti.
Mótmæltu fyrir loftslagið þriðja föstudaginn í röð

Tengdar fréttir

Boða til verkfalls fyrir loftslagið: „Það er verið að gera okkur grikk“
Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) boða til verkfalls fyrir loftslagið á Austurvelli næstkomandi föstudag klukkan 12.

Loftslagsverkfall: „Við verðum hérna alla föstudaga þar til gripið er til aðgerða“
Fjöldi íslenskra stúdenta komu saman á Austurvelli í hádeginu í dag í fyrsta loftslagsverkfalli ungmenna hér á landi. Skilboðin voru skýr: stjórnvöld þurfa að bregast stax við neyðarástandi í loftlagsmálum. Framtíð þeirra sé í húfi.