Forsvarsmenn verkalýðsfélaganna, VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur, gengu út af sameiginlegum fundi með SA í húsakynnum ríkissáttasemjara á þriðja tímanum í dag. Fastlega má búast við því að félögin hefji nú undirbúning atkvæðagreiðslna um boðun verkfalla.
Halldór Benjamín tjáði blaðamönnum sem hópuðust að honum eftir fund hans með félögunum fjórum að SA hafi ekki lagt fram nýtt tilboð í dag. Áfram væri stuðst við þær útfærslur sem SA kynnti verkalýðsforystunni um miðja síðustu viku.
Sjá einnig: „Þetta er ekki uppboð á notaðri bifreið“
„Við lýstum því sjónarmiði okkar að grundvöllur kjarasamnings við Samtök atvinnulífsins, gagnvart öllum okkar viðsemjendum, væri að skapa skilyrði hér fyrir vaxtalækkun Seðlabanka Íslands, stuðla að jákvæðri kaupmáttarþróun á næstu árum og ekki síður að koma í veg fyrir verðhækkanir og lægra atvinnustig,“ sagði Halldór Benjamín.
Tilboð SA hvíli á því svigrúmi sem samtökin telja vera til staðar á íslensku vinnumarkaði. „Miðað við þessar gríðarlega mikilvægu forsendur getum við ekki sem ábyrgur samningsaðili hvikað frá þessu tilboði og þar við sat í dag,“ útskýrði Halldór.
Þrátt fyrir að viðræðum hafi verið slitið í dag er endatakmarkið áfram það sama að sögn Halldórs. Það þurfi að ljúka gerð kjarasamnings á næstu vikum - „en takturinn gæti mögulega hafa breyst í dag.“
Fréttin hefur verið uppfærð