Enski boltinn

Ofursunnudagur á Englandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
City er ríkjandi deildarbikarmeistari
City er ríkjandi deildarbikarmeistari getty
Manchester City vonast eftir því að landa sínum fyrsta titli á tímabilinu þegar liðið mætir Chelsea­ í úrslitaleik deildabikarsins á Wembley klukkan 16.30 á morgun. Þá verður leik Manchester United og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni lokið en stuðningsmenn City fylgjast væntanlega grannt með gangi mála þar enda gætu úrslitin í þeim leik haft mikið að segja í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn.

City er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 65 stig, jafn mörg og Liverpool en hagstæðari markatölu. Liverpool hefur hins vegar leikið einum leik færra en City og fái Bítlaborgarliðið stig á Old Trafford fer það á toppinn. Liverpool vann fyrri leikinn gegn United, 3-1, en það reyndist síðasti leikur José Mourinho með Manchester-liðið. Portúgalinn var rekinn tveimur dögum eftir leikinn á Anfield. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og United hefur ekki tapað deildarleik síðan gegn Liverpool, eða í um tvo mánuði. United hefur unnið ellefu af 13 leikjum sínum undir stjórn Ole Gunnars Solskjær, gert eitt jafntefli og aðeins tapað einum leik.

Liverpool hefur bara tapað einum leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, gegn City, og Tottenham er eina liðið sem hefur náð í fleiri stig á útivelli á tímabilinu en Rauði herinn. Liverpool hefur hins vegar ekki unnið leik á Old Trafford síðan 2014. Þá vann Rauði herinn 0-3 sigur.

Sjötti titilinn innan seilingar

City-menn vonast væntanlega eftir greiða frá grönnum sínum áður en þeir ganga inn á Wembley-leikvanginn þar sem þeir etja kappi við Chelsea. Þessi lið mættust þann tíunda þessa mánaðar og þá vann City stórsigur, 6-0. Sergio Agüero skoraði þrjú markanna en hann hefur verið funheitur að undanförnu. Fyrir utan tap fyrir Newcastle United hefur City verið á fljúgandi siglingu á árinu 2019 og skorað aragrúa marka.

Gengi Chelsea hefur hins vegar verið brokkgengt og Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri liðsins, situr í heitu sæti. Chelsea féll úr leik í ensku bikarkeppninni fyrir United á mánudaginn og er komið niður í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Til að bæta gráu ofan á svart var Chels­ea dæmt í félagaskiptabann í gær.

City og Chelsea hafa hvort um sig unnið deildabikarinn fimm sinnum. City hefur verið sérstaklega öflugt í þessari keppni á undan­förnum árum og unnið deildabikarinn þrisvar sinnum frá 2014. Í fyrra vann liðið Arsenal í úrslitaleik keppninnar, 3-0, og á því titil að verja. Mikið hefur verið rætt og ritað um möguleika City á að vinna fjórfalt í ár. Strákarnir hans Peps Guardiola gætu nælt í fyrsta titilinn af fjórum mögulegum á morgun.

Chelsea varð síðast deildabikarmeistari fyrir fjórum árum. Þetta er í fyrsta sinn sem City og Chelsea mætast í úrslitaleik, annaðhvort bikarkeppninnar eða deildabikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×