Sjá einnig: „Hann er rasisti. Hann er svikahrappur. Hann er svindlari“
Búast má við hörðum orðaskiptum á fundinum og þá sérstaklega því að Repúblikanar í nefndinni muni fara hart fram gegn Cohen. Sjálfur hefur Cohen sakað Trump og bandamenn hans um að ógna sér og fjölskyldu hans einnig.
Hér að neðan má fylgjast með nefndarfundinum. Neðst í fréttinni má svo finna beina textalýsingu blaðamanns Vísis.
„Hey @MichaelCohen212, vita eiginkona þín og tengdafaðir af kærustum þínum? Kannski er kvöldið góður tími til að ræða saman. Ég velti fyrir mér hvort hún verði trú þér þegar þú ert í fangelsi. Hún er að fara að komast að miklu,“ sagði Gaetz í tísti sem hann eyddi í nótt.
Þegar blaðamaður Washington Post ræddi við hann eftir tístið sagðist hann ekki vera að reyna að ógna Cohen. Þess í stað væri hann að draga trúverðugleika hans í efa.
Þingmenn Demókrataflokksins og lagasérfræðingar gagnrýndu Gaetz þó harðlega og sögðu tíst hans jafnvel vera lögbrot. Í kjölfarið eyddi hann tístinu og tísti aftur þar sem hann sagði mikilvægt að setja vitnisburð „lygara“ eins og Cohen í samhengi. Hann hafi ekki ætlað sér að ógna honum.