Erlent

Rússar ætla að aftengjast veraldarvefnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Rússnesk stjórnvöld vilja að á endanum fari öll netumferð í gegnum þau.
Rússnesk stjórnvöld vilja að á endanum fari öll netumferð í gegnum þau. Vísir/Getty
Netsambandi Rússlands við umheiminn verður lokað stuttlega í vor en það er sagður hluti af undirbúningi þarlendra stjórnvalda fyrir mögulegt tölvustríð við erlend ríki. Aðeins verður hægt að tengjast um netið innan Rússlands á meðan tilraunin stendur yfir.

Rússneska þingið samþykkti lög í fyrra sem skikkuðu netþjónustufyrirtæki til þess að tryggja að netsamband dytti ekki niður ef aðrar þjóðir reyndu að einangra Rússland frá veraldarvefnum. Vestræn ríki hafa sakað rússnesk stjórnvöld um tölvuárásir, þar á meðal í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016, og hótað refsiaðgerðum.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að áformað sé að tilraun með það verði gerð 1. apríl en endanleg dagsetning hafi þó ekki verið ákveðin.

Yfirvöld vilja einnig að netþjónustufyrirtækin sýni að þau geti veitt allri netumferð í gegnum kerfi ríkisstjórnarinnar. BBC segir að stjórnvöld í Kreml vilji á endanum að öll netumferð fari í gegnum ríkiskerfin til að herða eftirlit sitt og ritskoðun á netinu.

Tæknifyrirtækin óttast þó að tilraunin í vor eigi eftir að valda miklum röskunum á netumferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×