FH-ingurinn var ósáttur við að stjórn KSÍ hefði ekki gagnrýnt afskipti forseta UEFA, Aleksander Ceferin, af formannskjöri sambandsins. Hann benti svo á að Guðni hefði getað fordæmt afskiptin í kappræðum Stöðvar 2 Sports en hefði sleppt því.
„Það er algerlega óþolandi að mínu viti að okkar stjórn, þeir sem eiga að passa upp á svona hluti, skuli ekki hafa brugðist við. Því að þögnin er sama og samþykki,“ sagði Jón Rúnar í eldræðu sinni og bætti svo við.
„Ég var líka tiltölulega hissa á Guðna Bergssyni, þeim mæta dreng sem situr sem formaður, hann fékk tækifæri til þess í sjónvarpsviðtali - svo ég tali nú ekki um hvert við erum komin þegar kosningar hér til formanns eru orðið aðalsjónvarpsefnið, látum það liggja á milli hluta - þar var að sjálfsögðu hægt að fordæma þetta. Þó svo að um leið, að ágætur Guðni hefði getað þakkað fyrir stuðninginn - það er bara allt, allt annað mál.“
Guðni steig svo síðar í pontu á ársþinginu, rétt áður en gengið var til formannskjörs, og kom þá inn á ræðu Jóns Rúnars en kaus að svara honum ekki.
„Þetta kom aðeins á óvart áðan. Talandi um íhlutanir eða hafa áhrif,“ sagði Guðni lítt hrifinn af ræðu Jóns Rúnars.
„Varðandi málflutning Jóns. Hvernig hann kemur fram og svo framvegis. Ég ætla að láta það liggja á milli hluta. Ég hef verið áður í þessum sporum og það er ýmislegt sem að gerist í þessari hreyfingu og ég kannast við að menn reyni auðvitað að hafa sín áhrif og það var augljóst með þessum ummælum en setjum það til hliðar.“
Sjá má viðbrögð Guðna við ræðunni hér að neðan.