Handbolti

Sjáðu ótrúlegt jöfnunarmark Vals á móti Stjörnunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Valur missteig sig í toppbaráttu Olís-deildar kvenna í gærkvöldi þegar að liðið gerði jafntefli, 23-23, á móti Stjörnunni á heimavelli.

Minnstu munaði að Stjarnan skellti toppliðinu í Origo-höllinni en Kristín Guðmundsdóttir, fyrrverandi leikmaður Vals, skoraði 23. mark gestanna þegar að um 20 sekúndur voru eftir.

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, tók leikhlé og fór Valur í lokasóknina þegar að sextán sekúndur voru eftir af leiknum og þurftu Valskonur að skora til að ná í stig.

Eftir fínt spil kom Sandra Erlinsdóttir boltanum út í horn á Írisi Ástu Pétursdóttur sem fór inn úr þröngu færi með Stefaníu Theodórsdóttur fyrir framan sig en Íris náði að skora framhjá Hildi Öder Einarsdóttur í marki Stjörnunnar.

Íris hefði nú líklega fengið víti ef Hildur hefði varið en boltinn í netinu og ekki nægur tími fyrir Stjörnuna til að komast aftur í sókn.

Valur er áfram á toppnum með 26 stig, stigi á undan Íslands- og bikarmeisturum Fram, þegar fimm umferðir eru eftir en Valur og Fram mætast í lokaumferðinni í leik sem gæti orðið úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn.

Stjarnan er nú með ellefu stig í sjötta sæti, fjórum stigum á undan HK og náði með stiginu að öllum líkindum endanlega að bjarga sér frá sæti í umspilinu.

Markið magnaða hjá Írisi Ástu má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir

Jafntefli í háspennuleik á Hlíðarenda

Stjarnan tók stig af toppliði Vals í Olísdeild kvenna þegar liðin mættust í Origohöllinni að Hlíðarenda í kvöld. Haukar unnu öruggan sigur á Selfossi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×