Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hyggst beita neitunarvaldi sínu velji Bandaríkjaþing að hafna neyðarástandsyfirlýsingu forsetans. Þetta segir ráðgjafi forsetans, Stephen Miller við Fox News en AP greinir frá.
Miller var gestur í sjónvarpsþættinum Fox News Sunday og sagði þar Trump ætla að verja neyðarástandsyfirlýsinguna með kjafti og klóm. Spurður hvort það þýddi að Trump myndi beita neitunarvaldi sínu yfir þinginu svaraði Miller játandi.
Trump lýsti yfir neyðarástandi á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó síðasta föstudag, það gerði hann til þess að komast í kringum ferla Bandaríkjaþings og ráðstafa fjármunum til þess að reisa landamæramúrinn sem hann hefur kallað eftir í áraraðir.
Sjá einnig: Trump lýsir yfir neyðarástandi á landamærunum
Ekki leið á löngu eftir yfirlýsingu Trump að andstæðingar hans, Demókratar, lýstu því yfir að þeir myndu stöðva forsetann og aflétta neyðarástandinu
Sjá einnig: Demókratar ætla að standa í vegi fyrir Trump
Meðal aðgerða sem Demókratar hugðust beita væri að leggja fram frumvarp. Líklegt þykir að meirihluti þingmanna styðji slíkt frumvarp og því myndi það berast til forsetans.
Hann myndi þó, eins og Miller sagði, líklegast beita neitunarvaldi og þar með skjóta því aftur til beggja þingdeilda. Þar þyrftu Demókratar að fá aukinn meirihluta í deildum þingsins til þess að ógilda neitun forsetans.
Ólíklegt þykir þó að aukinn meirihluti sé til staðar fyrir afléttingu neyðarástandsyfirlýsingarinnar.
