Formaður VR gaf stjórnendum Kviku fjögurra daga frest til að draga hækkanir til baka ella myndi VR taka allt sitt fé, um 4,2 milljarða króna, úr eignastýringu bankans.
VR birti opið bréf til stjórnenda Kviku banka á heimasíðu sinni í dag og sendi tilkynningu þess efnis til fjölmiðla. Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir að á sama tíma hafi erindið borist á sitt borð. Því hafi hann svarað um leið. Ekkert svar hafi enn sem komið er borist frá Ragnari Þór.
„Staðan er auðvitað bara sú að Samkeppniseftirlitið er ekki búið að heimila kaup okkar á Gamma,“ segir Ármann í samtali við Vísi.
„Við eigum ekkert í Gamma.“

„Á meðan kaupin hafa ekki gengið í gegn þá er okkur algjörlega óheimilt að reyna að hafa nokkurs konar áhrif á rekstur. Það væri brot á Samkeppnislögum og jafnvel hlutabréfalögum.“
Hann telur því erindi Ragnars á misskilningi byggt.
Greint var frá kaupum Kviku á Gamma í nóvember. Kaupverðið nam 2,4 milljörðum króna en háð samþykki eftirlitsaðila. Hluthafar í Kviku hafa þegar samþykkt kaupin.