Tvö lög verða flutt á íslensku á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar en það eru lög hljómsveitarinnar Hatara og Friðriks Ómars. Úrslitakvöldið fer fram í Laugardalshöllinni þann 2. mars.
Lögin tvö hafa þótt ansi sigurstrangleg í keppninni í ár en um er að ræða lögin „Hatrið mun sigra“ sem hljómsveitin Hatari flytur og „Hvað ef ég get ekki elskað“ í flutningi Friðriks Ómars. Önnur lög verða flutt á ensku á úrslitakvöldinu.
Fimm lög keppa til úrslita þann 2. mars næstkomandi en tvö lög komust áfram hvert undanúrslitakvöld. Fimmta lagið var svo valið af framkvæmdarstjórn keppninnar en það var lagið „Mama said“ í flutningu hinnar færeysku Kristinu Bærendsen.
Greint var frá því í dag að fyrirkomulagi keppninnar yrði breytt og munu lögin sem komast í úrslitaeinvígið taka með sér þau atkvæði sem þau fengu úr fyrri símakosningu. Áður fyrr var fyrirkomulagið á þann veg að atkvæðin „núlluðust úr“ þegar komið var í einvígið sjálft.

