Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ætlar ekki að ræða opinberlega einstakar tölur sem ræddar hafa verið við samningaborðið. Í gær greindu verkalýðsforingjar frá því að SA vilji lækka yfirvinnuálagsprósentu úr 80% í 66%. Sameiginleg samninganefnd Starfsgreinasambandsins fundaði með SA í dag og í fyrramálið hefur næsti formlegi fundur verið boðaður í viðræðum VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Grindavíkur og Verkalýðsfélags Akraness með SA hjá ríkissáttasemjara.
„Ég get ekki tjáð mig um einstaka atriði en þetta eru tillögur sem að við teljum að séu til bóta fyrir fyrirtækin í landinu og launamenn, aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði og séu betur til þess fallin að þróa vinnumarkaðinn áfram sem hefur lítið breyst á undanförnum árum og er kominn tími til að við uppfærum hann,“ segir Halldór Benjamín.
Í grein sem Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skrifaði í gær segir hann að honum þyki líklegra að það stefni í hörð verkfallsátök heldur en að samningar náist í byrjun mars. Halldór Benjamín Þorgbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir viðræðurnar vera snúnar en kveðst vongóður. „Ég held að þetta sé tvísýn staða, við þurfum að gæta orða okkar og tala af ábyrgð. Ég endurtek að á meðan við erum að funda er alltaf von og ég er vongóður um framhaldið,“ segir Halldór.
