Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra útilokar ekki breytingar á fjölmiðlafrumvarpi sem hún kynnti fyrir viku og felur í sér ríkisstyrki til sjálfstæðra fjölmiðla.
Nú er skoðað að fella einnig niður tryggingagjald á launakostnað ritstjórna sjálfstæðra miðla, líkt og Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lagði til í Morgunblaðinu í gær.
Tryggingagjald er gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna. Hlutfallið er 6,6 prósent. „Ég útiloka ekki frekari stuðning við einkarekna fjölmiðla. Frumvarpið er heillaskref. Það tekur mið af því besta sem gerist á Norðurlöndum og er viðurkenning á vandanum sem einkareknir fjölmiðlar glíma við, en það er eins og með önnur frumvörp að þau taka oft breytingum í samráðsferli,“ segir Lilja. Áfram verði unnið að því að rétta stöðu sjálfstæðra fjölmiðla. „Ég hef sagt að þetta sé ágætis byrjun. Ég er opin fyrir öllum góðum hugmyndum.“
Þingmenn innan Sjálfstæðisflokks hafa gert athugasemdir við frumvarpið og gagnrýnt að ekkert sé tekið á umfangi RÚV á auglýsingamarkaði. Óli Björn sagðist enn fremur andvígur því að komið yrði á fót „millifærslu- og styrktarsjóði til að styðja við sjálfstæða fjölmiðla,“ í grein sinni og segir ríkisstyrkina sem lagðir eru til í frumvarpinu, sem liggur í samráðsgáttinni og er opið til umsagnar, verstu leiðina til að styrkja einkarekna miðla. Fleiri þingmenn flokksins hafa efasemdir um fyrirkomulagið. Aðgerð af þessu tagi gæti skapað meiri sátt um málið meðal stjórnarliða.
