Sextán starfsmönnum á skrifstofu Icelandair í Reykjavík var sagt upp í gær. Þetta staðfestir Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs fyrirtækisins.
Elísabet segir að á undanförnum mánuðum hafi Icelandair ráðist í umfangsmiklar úrbætur á skipulagi, ferlum, þróun stafrænna lausna og þjónustuframboði fyrirtækisins með það að markmiði að bæta þjónustu við viðskiptavini. Séu uppsagnirnar í framhaldi af því ferli.
„Það ber að hafa í huga að Icelandair er stórt fyrirtæki á samkeppnismarkaði með á fimmta þúsund starfsmenn, þar af rúmlega 500 manns á skrifstofu félagsins í Reykjavík,“ segir í svari Elísabetar.

