Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan sendi norskum fjölmiðlum í morgun en í dag eru þrír mánuðir liðnir frá því að Anne-Elisabeth hvarf.
Anne-Elisabeth er ein ríkasta kona Noregs og gift milljarðamæringnum Tom Hagen. Gengið er út frá því að henni hafi verið rænt af heimili þeirra hjóna þann 31. október síðastliðinn.
Rannsókn lögreglu á hvar Anne-Elisabeth er niðurkomin hófst strax sama dag en yfirvöld eru litlu sem engu nær nú þremur mánuðum síðar um hvar hún er eða hvað kom fyrir nákvæmlega fyrir hana. Þannig er ekki vitað hvort að Anne-Elisabeth er í Noregi eða erlendis eða hvort hún er yfirhöfuð á lífi.
Fyrst um sinn fór rannsóknin afar leynt og var til að mynda ekkert fjallað um málið í fjölmiðlum þar sem óttast var um öryggi Anne-Elisabeth.

Yfir 1300 vísbendingar á þremur vikum
Það var svo þann 9. janúar síðastliðinn sem fjölmiðlar greindu frá málinu. Síðan þá hafa lögreglu borist um 1300 vísbendingar vegna hvarfsins en líkt og með hlutina úr vatninu vill hún lítið tjá sig um það í hverju þær vísbendingar hafa falist.Daginn eftir að greint var frá hvarfi Anne-Elisabeth í fjölmiðlum birti lögreglan myndbönd úr eftirlitsmyndavél í grennd við vinnustað Tom Hagen.
Óskaði lögreglan eftir því að ná tali af tveimur mönnum sem sjást á upptökunum vegna rannsóknarinnar en þeir hafa ekki enn gefið sig fram.
Að því er segir í frétt VG hefur lögreglan ekki svarað ítrekuðu fyrirspurnum blaðsins um það hvers vegna talið sé að mennirnir hafi ekki gefið sig fram eftir allan þennan tíma og mikla fjölmiðlaumfjöllun.

Yfir milljarður króna í lausnargjald
Í liðinni viku greindi lögmaður fjölskyldu Anne-Elisabeth frá því að menn sem segjast hafa rænt konunni hafi sett sig í samband við fjölskylduna þann 16. janúar síðastliðinn. Skilaboðin bárust í gegnum sama stafræna vettvang og ræningjarnir hafa áður notað til að hafa samband.„Skilaboðin voru hvorki sönnun þess efnis að Anne-Elisabeth sé á lífi né að sendandi hafi Anne-Elisabeth í haldi í dag,“ er haft eftir lögmanninum.
Ræningjarnir hafa krafist lausnargjalds, sem jafngildir yfir milljarði íslenskra króna í órekjanlegri rafmynt, Monero.