„Skólinn er á mína ábyrgð. Ég tek afleiðingunum af þessum málum og segi af mér,“ sagði Rigmor Dam í viðtali í sjónvarpsþættinum Dagur og Vika í Kringvarpi Færeyja. Í yfirlýsingu sagðist hún vilja skapa frið um Glasir-skólann.
„Það vorum við sem sömdum um að hún skyldi segja af sér,“ sagði Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, sem hefur jafnframt tekið tímabundið við menntamálunum í landsstjórninni.
Samkvæmt fréttum færeyskra fjölmiðla er heildarkostnaður við byggingu menntaskólans kominn í 11,6 milljarða íslenskra króna. Framúrkeyrslan nemur um 840 milljónum íslenskra króna.

Trúnaðarbrestur varð vegna munnlegra samninga um viðbótarverk, sem Landsverkið sagðist hafa gert með leyfi Ríkisendurskoðunar, sem neitar því að hafa veitt slíkar heimildir, enda sé reglan sú að samningar skuli vera skriflegir.
Aksel V. Johannesen lögmaður kom Rigmor Dam til varnar í desember. Hann sagði að sökin í málinu lægi einhversstaðar á milli Landsverksins og danska fyrirtækisins, sem hannaði bygginguna. Aksel sagði þá að Rigmor hefði gert allt rétt í meðhöndlun sinni á Glasir-verkefninu. Enginn ástæða væri til að ásaka hana.
Hann bætti þó við að ef í ljós kæmi að hún nyti ekki trausts meirihlutans, fyrir það hvernig hún hefði haldið á málinu sem ráðherra, væri sinn flokkur, Javnaðarflokkurinn, tilbúinn að leysa hana undan skyldum sínum.
Stjórnarandstaðan hótaði vantrauststillögu og sagði stjórnina reyna að koma sér undan pólitískri ábyrgð á málinu. Fór svo að Rigmor sagði af sér á mánudag.

Rigmor Dam er af þekktri stjórnmálaætt í Færeyjum og var fyrst kjörin á þing fyrir Javnaðarflokkinn árið 2011. Atli Dam lögmaður var frændi hennar og afi hennar, Peter Mohr Dam, var einnig lögmaður Færeyja. Frænka hennar, Helena Dam, dóttir Atla Dam, hefur einnig gegnt ráðherraembættum.