Innlent

Námsmaður endurgreiði 700 þúsund

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Námsmaðurinn þarf að endurgreiða Vinnumálastofnun um 800 þúsund krónur.
Námsmaðurinn þarf að endurgreiða Vinnumálastofnun um 800 þúsund krónur.
Konu í framhaldsskólanámi hefur verið gert að endur­greiða Vinnumálastofnun (VMS) tæpar 700 þúsund krónur, auk 15 prósent álags á upphæðina, vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála (ÚRVe).

Lögum samkvæmt er óheimilt að stunda nám yfir tíu einingum og þiggja samtímis atvinnuleysisbætur. Þá er það skilyrði að gerður sé námssamningur við stofnunina og henni þar með gert viðvart um námið. Konan skráði sig í nám á haustönn 2017 eftir að hafa verið hvött til þess af starfsmanni VMS. Taldi starfsmaðurinn að það myndi styrkja stöðu hennar í atvinnuleit.

Varð það úr að konan tók tíu einingar, það er framhaldsskólaeiningar, á haustönninni. Á vorönninni var henni bent á það af skólanum að rétt væri að hún tæki nokkra eldri áfanga, tíu einingar til viðbótar, á nýjan leik þar sem einkunnir hennar hefðu ekki verið góðar í fyrstu atrennu. Fylgdi hún þeirri ráðleggingu.

VMS krafði hana þá um endurgreiðslu á bótum fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þar sem hún hefði verið skráð í tuttugu eininga nám. ÚRVe féllst á aðgerðir VMS og staðfesti þær. Þó fann nefndin að því að samningur VMS við konuna hefði ekki verið skriflegur heldur aðeins munnlegur. Konan þarf því að greiða stofnuninni alls um 800 þúsund krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×