Innlent

Bærinn brotlegur í líkamsræktarútboði

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ráðhús Garðabæjar.
Ráðhús Garðabæjar. Fréttablaðið/Ernir
Verulegar líkur eru á að Garðabær hafi brotið gegn reglum um opinber innkaup í útboði á líkamsræktarstöð við Ásgarð. Þetta er niðurstaða kærunefndar útboðsmála sem féllst á kröfu forsvarsmanna Sporthallarinnar um að stöðva útboðið um stundarsakir.

Garðabær óskaði í október 2017 eftir umsóknum um að taka þátt í uppbyggingu og rekstri, fjármögnun og byggingu aðstöðu til líkamsræktar við íþróttamiðstöðina í Ásgarði. Eftir nokkurt ferli varð það niðurstaða bæjarins að hagkvæmara tilboð Sporthallarinnar teldist ógilt og að leitað yrði samninga við Laugar ehf. Forsvarsmenn Sporthallarinnar töldu þá niðurstöðu ólögmæta.

Verkefnið fól í sér að bjóðendur byggðu nýjar viðbyggingar við núverandi íþróttamannvirki á eigin kostnað fyrir allt að 99 milljónir króna og greiddu leigu fyrir afnot af núverandi aðstöðu fyrir allt að 39 milljónir á ári í 20 ár að lágmarki.

Kærunefndin sagði að verðmæti verksins væri umfram tiltekna viðmiðunarfjárhæð um sérleyfissamninga. Garðabæ hafi því borið að tilkynna um veitingu sérleyfisins með opinberum hætti á Evrópska efnahagssvæðinu.

„Eru því fram komnar í málinu verulegar líkur á broti á reglum um opinber innkaup,“ segir nefndin. Skilyrðum um að fallast á kröfu Sporthallarinnar um að hið kærða útboð verði stöðvað um stundarsakir væri því fullnægt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×