Sagt er frá tveimur rannsóknum sem Umhverfisstofnun lét gera á plastmengun í hafinu við Ísland á vef stofnunarinnar. Kræklingur varð fyrir valinu því hann er sagður hentugur til að meta örplastmengun í hafi en fýllinn til að fá mynd af menguninni í yfirborði sjávar.
Meira en 0,1 gramm af örplasti fannst í um 16% fýlanna sem Náttúrustofa Norðausturlands rannsakaði. Um 3,65 plastagnir fundust í þeim að meðaltali. Örlítið meira af plasti reyndist í fýlum frá Norðausturlandi en frá Vestfjörðum og marktækt meira plast var í maga kvenfugla, bæði hvað varðar fjölda agna og þyngd þeirra.

Í frétt á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að þrátt fyrir þetta sé örplastmengun í kræklingi og fýlum minni við Ísland en í ýmsum öðrum löndum. Það breyti þó ekki því að Ísland sé ekki laust við plastmengun í hafi.
„Mikilvægt er að Íslendingar dragi verulega úr neyslu á plasti og flokki/endurvinni allt plast. Einnig þarf að bæta hreinsun á skólpi og ofanvatni til að koma í veg fyrir losun á plasti og örplasti í sjóinn,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.