Erlent

Húsnæði í snotrum sikileyskum smábæ til sölu fyrir slikk

Andri Eysteinsson skrifar
Sambuca liggur í fallegum Sikileyskum hæðum.
Sambuca liggur í fallegum Sikileyskum hæðum. Skjáskot/ Google Maps
Húsnæðisverð í ítalska smábænum Sambuca á Sikiley hefur líkast til aldrei verið lægra. Bærinn býður nú húsnæði til sölu á eina evru, um 140 krónur. Sambuca er lítill strandbær á vesturhluta Sikileyjar.

Um 6000 manns búa í bænum og njóta þeir fallegs útsýnis yfir Miðjarðarhafið. Vegna smæðar samfélagsins í Sambuca, hefur bæjarstjórnin ákveðið að selja húsnæði úr hennar eigu. Nokkrar tylftir híbýla eru til sölu og verðið er eins og áður sagði ein evra.

Að búa í fallegum rólegum smábæ í ítölskum hlíðum gæti verið draumur margra og því eflaust fjölmargir sem stökkva á tilboð bæjaryfirvalda Sambuca. En gæti tilboðið verið of gott til að vera satt?

Verðandi eigendur húsnæðisins í Sambuca þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði. Bæjaryfirvöld hafa ákveðið að bjóða húsnæðið á spottprís gegn því að eigendur skuldbindi sig til að gera húsið upp á næstu árum fyrir hið minnsta 15.000 evrur og leggja þarf fram 5000 evru tryggingafé sem fæst endurgreitt við verklok.

Bæjarstjóri Sambuca, Giuseppe Cacioppo, segir að kaupendur muni ekki verða fyrir vonbrigðum. Landið sem Sambuca stendur á sé kallað paradís á jörð. Gullfallegar strendur, skógar og fjöll umlykja bæinn sem sé friðsamlegur með eindæmum.

Caccioppo segir að vegna fólksfækkunar í bænum neyðist Sambuca til að grípa til aðgerða til að fá nýtt fólk inn í bæinn.

Framtak bæjaryfirvalda í Sambuca hefur komist í heimspressuna og hafa stórir fréttamiðlar á borð við CNN greint frá. Því er ljóst að dreymi einhvern um sældarlíf á Sikiley þarf sá hinn sami að hafa hraðar hendur á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×