Einn angi rannsóknarinnar sem Robert Mueller, sérstaki rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, stýrir beinist að því hvort að Trump hafi sem forseti reynt að hindra framgang réttvísinnar, ekki síst með því að reka James Comey sem forstjóra alríkislögreglunnar FBI í fyrra.
Trump tilnefndi Barr sem eftirmann Jeff Sessions sem var rekinn sem dómsmálaráðherra daginn eftir þingkosningar í byrjun nóvember. Staðfesti öldungadeild þingsins hann í embætti hefði Barr sem dómsmálaráðherra umsjón með Rússarannsókninni svonefndu.
Wall Street Journal segir frá tuttugu blaðsíðna áliti sem Barr sendi dómsmálaráðuneytinu óumbeðinn 8. júní. Bréfið var stílað á Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherrann, sem hefur haft umsjón með Rússarannsókninni frá því að Sessions lýsti sig vanhæfan í fyrra.
Sagðist Barr vera fyrrverandi embættismaður og að hann vonaðist til þess að „sjónarmið hans reyndust gagnleg“. Hann hefði áhyggjur af rannsókninni á meintum tilraunum Trump til að hindra framgang réttvísinnar.

Hafði uppi stór orð um Mueller-rannsóknina
Í álitinu sagðist Barr telja að Trump hefði haft fullt vald til þess að reka Comey.„Eins og ég skil þetta byggist kenning hans á nýstárlegri og lagalega óstuddri túlkun á lögunum,“ skrifaði Barr ráðuneytinu.
Varaði hann við því að ef dómsmálaráðuneytið leyfði Mueller að halda áfram á sömu braut hefði það „grafalvarlegar afleiðingar langt umfram mörk þessa máls og ylli varanlegum skaða á forsetaembættinu og framkvæmd laga innan framkvæmdavaldsins“.
Sagðist hann telja nálgun Mueller „frámunalega óábyrga“ með „mögulega hörmulegar afleiðingar“. Forseti gerist aðeins sekur um hindrun á framgangi réttvísinnar ef hann skipar vitnum að ljúga eða eyðileggur sönnunargögn.
„Mueller ætti ekki að leyfast að krefja forsetann um að gangast undir yfirheyrslu um meinta hindrun,“ skrifaði Barr sem vildi ekki tjá sig um álitið við Wall Street Journal.
Sagði Trump frá álitinu
Fastlega má búast við að álitið verði dregið upp þegar þingið fer yfir tilnefningu Barr. Búist er við því að hann verði formlega tilnefndur í næsta mánuði og að nefndarfundir um skipanina verði haldnir í framhaldinu.Barr sagði Trump frá álitinu eftir að forsetinn bauð honum starfið og lét hann vita af því að það gæti vakið spurningar hjá þingmönnum.
Wall Street Journal hefur eftir dómsmálaráðuneytinu að álit Barr valdi ekki hagsmunaárekstri.
Barr var áður dómsmálaráðherra í tíð George H.W. Bush forseta.