Sjá einnig: Sá Maren síðast á lífi er leiðir þeirra skildu á Íslandi
Vegfarandi gekk fram á lík Marenar Ueland og Louisu Vesterager Jespersen í grennd við bæinn Imlil í Atlasfjallgarðinum í Marokkó á mánudagsmorgun. Áverkar eftir eggvopn fundust á hálsi þeirra. Þær stunduðu báðar nám við Háskólann í Þelamörk í Noregi og voru saman á mánaðarlöngu bakpokaferðalagi um Marokkó.
Dreift á samfélagsmiðlum
Greint var frá því í gær að myndband, sem talið er sýna morðið á a.m.k. annarri konunni, hefði farið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur staðfesti á blaðamannafundi í morgun að lögregla í Danmörku hefði myndbandið til rannsóknar. Hvorki uppruni þess né lögmæti hafa þó fengist staðfest.Norska öryggislögreglan Kripos hefur einnig rannsakað myndbandið, að því er fram kemur í frétt norska miðilsins TV2.

Þrír handteknir til viðbótar
Lögregla í Marokkó handtók í morgun þrjá menn til viðbótar í tengslum við málið, samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins NRK. Lögregla birti í gær myndir af þremur eftirlýstum mönnum vegna morðanna en ekki er ljóst hvort þremenningarnir séu þeir sömu og handteknir voru í dag. Áður höfðu þrír menn verið handteknir í tengslum við málið en aðeins einn þeirra er enn í haldi lögreglu.Í gær var greint frá því að morðin á Maren og Louisu beri þess öll merki að vera hryðjuverk, og séu skilgreind sem slíkt. Mennirnir sem grunaðir eru um verknaðinn eru taldir tengjast hryðjuverkasamtökum.