Aukinn kraftur í hækkun ásetts verðs á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu undanfarna tólf mánuði skýrist fyrst og fremst af verðþróun nýbygginga.
Þannig var auglýst fermetraverð nýbygginga í október 17 prósent hærra en í október 2017 en meðalfermetraverð annarra íbúða hækkaði um þrjú prósent á sama tímabili.
Þá er meðalfermetraverð nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu nú um 19 prósent hærra en annarra íbúða og hefur hefur þessi munur ekki verið meiri í rúm þrjú ár.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs um fasteignamarkaðinn. Þar segir einnig að verð í kaupsamningum um íbúðir á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað með nokkuð jöfnum takti undanfarið. Tólf mánaða hækkun vísitölu íbúðaverðs mælist nú 4,1 prósent.
„Meiri kraftur hefur hins vegar verið í hækkun ásetts verðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum mánuðum. Vísitala ásetts verðs, sem reiknuð er af hagdeild, hefur hækkað um 7,2% á undanförnu ári,“ segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs.
Þróunin í verði á nýbyggingum skýrist að hluta til af fjölgun minni íbúða í nýbyggingum. Meðalstærð íbúða í nýbyggingum hefur farið minnkandi að undanförnu en á tímabilinu 2015 til 2017 voru nýjar íbúðir að meðaltali um tíu fermetrum stærri en aðrar íbúðir.
„[...] en nú er svo komið að auglýstar íbúðir í nýbyggingum eru ívið minni að meðaltali en aðrar auglýstar íbúðir,“ segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs sem lesa má í heild sinni hér.

