Erlent

Sex létust í troðningi á ítölskum næturklúbbi

Kjartan Kjartansson skrifar
Slökkviliðið á svæðinu birti myndir af vettvangi á Twitter-reikningi sínum.
Slökkviliðið á svæðinu birti myndir af vettvangi á Twitter-reikningi sínum. Skjáskot/Twitter
Mögulegt er talið að piparúði hafi valdið troðningi á næturklúbbi á austanverðri Ítalíu sem leiddi til þess að sex manns létust og tugir slösuðust, þar af tólf alvarlega. Um þúsund manns eru sagðir hafa verið á staðnum þegar troðningurinn hófst.

Tónleikar vinsæls ítalsks rappara fóru fram á Lanterna Azzurra-næturklúbbnum í bænum Corinaldo, ekki fjarri strandborginni Ancon á austurströnd Ítalíu í nótt. Frásagnir hafa borist af því að einhver hafi úðað piparúða inni á staðnum og við það hafi troðningurinn farið af stað um klukkan eitt að staðartíma í nótt.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að margir þeirra sem slösuðu séu með áverka eftir að hafa kramist undir mannmergðinni.

Fimmtán hundruð manns slösuðust í troðningi á torgi í borginni Tórínó þar sem fólk var saman komið til að fylgjast með úrslitaleik Meistaradeildarinnar í knattspyrnu í júní í fyrra. Þá var það flugeldur sem sprakk inni í þvögunni sem olli því að skelfing greip um sig og fólk tróðst undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×