Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga velti 12,6 milljónum evra, jafnvirði um 1.770 milljóna króna, á síðasta rekstrarári frá apríl í fyrra til mars síðastliðins. Tekjurnar jukust um 55 prósent frá fyrra rekstrarári þegar þær voru um 8,2 milljónir evra.
Þetta kemur fram í ársreikningi Meniga Limited sem skilað var til bresku fyrirtækjaskrárinnar fyrr í mánuðinum.
Rekstrartap íslenska hugbúnaðarfyrirtækisins nam 0,5 milljónum evra, sem jafngildir um 70 milljónum króna, á síðasta rekstrarári borið saman við rekstrartap upp á ríflega 3,8 milljónir evra á rekstrarárinu 2016 til 2017. Fram kemur í skýrslu stjórnar, sem fylgir ársreikningnum, að tap síðasta rekstrarárs hafi einkum skýrst af áframhaldandi fjárfestingum í markaðs- og greiningarlausnum.
Rekstrargjöld Meniga námu 13,1 milljón evra á síðasta rekstrarári og jukust um 9 prósent frá fyrra rekstrarári. Um eitt hundrað manns starfa hjá hugbúnaðarfyrirtækinu á skrifstofum þess hér á landi, í Bretlandi, Póllandi og Svíþjóð.
