Íslenska 19 ára landsliðið byrjar vel í riðli sínum í undankeppni EM 2019 en hann fer fram í Tyrklandi. Strákarnir mættu heimamönnum í fyrsta leik og unnu 2-1 sigur.
Blikinn Brynjólfur Darri Willumsson skoraði fyrra markið á 39. mínútu eftir stoðsendingu frá Atla Barkarsyni. Atli spilar með Norwich á Englandi.
Seinna markið skoraði síðan varamaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen á 84. mínútu eftir stoðsendingu frá öðrum varamanni, Ágústi Eðvaldi Hlynssyni. Andri Lucas er leikmaður Real Madrid á Spáni en Ágúst Eðvald spilar með Bröndby í Danmörku.
Tyrkir náðu að minnka muninn með marki á þriðju mínútu í uppbótartíma.
Tyrkir reyndu mun fleiri skot í leiknum, 21 á móti 9, en íslensku strákarnir nýttu færin betur og eru í góðum málum í riðlinum.
Þorvaldur Örlygsson er landsliðsþjálfari 19 ára liðs karla.
Byrjunarlið Íslands í leiknum í dag:
Patrik Sigurður Gunnarsson (Markvörður) - Brentford
Hjalti Sigurðsson - KR
Atli Barkarson - Norwich
Aron Ingi Andreasson - Hennef Fc
Ísak Óli Ólafsson - Keflavík
Þórir Jóhann Helgason - FH
Ísak Snær Þorvaldsson - Norwich
Birkir Heimisson (Fyrirliði) - Heerenven
Brynjólfur Darri Willumsson - Breiðablik
Stefán Árni Geirsson - KR
Sævar Atli Magnússon - Leiknir R
Varamenn:
Andri Lucas Guðjohnsen kom inn á 57. mínútu - Real Madrid
Ágúst Eðvald Hlynsson kom inn á 57. mínútu - Bröndby
Dagur Dan Þórhallsson kom inn á 57. mínútu - Keflavík
Fín byrjun hjá 19 ára strákunum í Tyrklandi
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
