„Það liggur ekkert fyrir um aðgerðir,“ segir Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari innt eftir því hvort ákveðið hafi verið að opna nýja rannsókn á mannshvörfunum; öðru þeirra eða báðum.
Fréttablaðið greindi frá því fyrr í haust að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu liggur undir feldi vegna málsins. Það er hins vegar einungis Guðmundarmálið sem er á forræði þess embættis en Guðmundur hvarf í Hafnarfirði í janúar 1974.

„Málinu var lokað hér sem óloknu á sínum tíma og ekki að sjá að það séu neinar viðbótarupplýsingar í því í rauninni,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. „Þá er þetta mál í rauninni eins og hvert annað mannshvarf og engu lokið í því en ekkert er aðhafst nema nýjar upplýsingar berist.“
Ólafur segir mikið álag á embættinu en gríðarlegan tíma tæki að fara í gegnum öll gögnin til að athuga hvort ástæða sé til að hefja einhverja rannsókn. „Ef við færum í að taka málið allt upp þá þyrftum við í rauninni sér fjárveitingu í málið. Það er ekkert útilokað en ekkert heldur sem við sjáum sem kallar á að gera slíkt,“ segir Ólafur. Hann segir þær upplýsingar sem embættinu hafi borist ekki hafa leitt neitt en að allar upplýsingar séu vel þegnar. adalheidur@frettabladid.is