Myndböndin hafa vakið mikla reiði í Toronto. Bæði myndböndin sýna nemendur skólans beita samnemendur sína ofbeldi en í fyrra myndbandinu er ungum dreng kastað í vask með köldu vatni á meðan skólafélagar hans slá hann ítrekað. Í seinna myndbandinu sést hópur drengja ráðast á annan nemanda í búningsherbergi skólans og brjóta á honum kynferðislega með kústskafti.
Telja að fleiri hafi orðið fyrir ofbeldi
Tilkynning barst til lögreglu á mánudag frá skólanum sjálfum eftir að stjórnendur skólans sáu myndbandið af drengnum sem var kastað í vaskinn. Sama dag barst seinna myndbandið til skólastjórnenda og var það rannsakað innan skólans áður en það var tilkynnt til lögreglu á miðvikudag.Skólinn hefur sent frá sér yfirlýsingu á samfélagsmiðlum þar sem þau segja reiði samfélagsins yfir málinu skiljanlega. Það sé óásættanlegt og málið sé í rannsókn.
SMCS Update and Timeline of Events. https://t.co/lQzeBaLr1Ypic.twitter.com/w8N7cIXrxZ
— St. Michael's C.S. (@SMCS1852) 16 November 2018
Lögreglan í Toronto rannsakar nú bæði atvikin en grunur leikur á að um fleiri tilvik séu að ræða þrátt fyrir að aðeins tvö myndbönd hafi farið í dreifingu. Lögregla hefur biðlað til nemenda skólans um að stíga fram viti þau um vitni eða aðra sem hafa lent í samskonar ofbeldi og ítrekar að varsla og dreifing á myndbandinu sem sýnir kynferðisofbeldi flokkist sem barnaklám.