Erlent

Látinn hórmangari og ákærðir menn náðu kjöri

Kjartan Kjartansson skrifar
Dennis Hof fannst látinn um miðjan október. Hann var kjörinn á ríkisþing Nevada í gær.
Dennis Hof fannst látinn um miðjan október. Hann var kjörinn á ríkisþing Nevada í gær. Vísir/Getty
Tveir þingmenn repúblikana sem hafa verið ákærðir fyrir glæpi og yfirlýstur hórmangari sem lést í síðasta mánuði eru á meðal þeirra sem Bandaríkjamenn kusu til þingsetu í kosningunum í gær. Kjósendur virtust ekki setja vafasama fortíð sumra frambjóðenda fyrir sig.

Duncan Hunter, þingmaður repúblikana í Kaliforníu, og Chris Collins, þingmaður flokksins frá New York, náðu báðir endurkjöri í kosningum til fulltrúadeildarinnar. Alríkisyfirvöld hafa ákært þá báða fyrir meint brot.

Hunter og eiginkona hans eru sökuð um að hafa misnotað kosningasjóði í eigin þágu en Collins er ákærður fyrir að hafa látið syni sínum í té innherjaupplýsingar um lyfjafyrirtæki í tengslum við hlutabréfakaup.

Kjósendur demókrata voru einnig tilbúnir að líta fram hjá meintum glæpum frambjóðenda sinna. Þannig náði Bob Menendez, öldungadeildarþingmaður flokksins í New Jersey, endurkjöri í gær. Hann var ákærður fyrir spillingu en málið gegn honum var látið niður falla eftir að kviðdómur komst ekki að niðurstöðu.

Sérstaka athygli vekur að kjósendur í sunnaverðu Nevada kusu Dennis Hof, eiganda vændishúsa og yfirlýstan hórmangara, til setu á ríkisþinginu sem fulltrúa Repúblikanaflokksins. Hof fannst látinn eftir mikil skemmtanahöld í tilefni af 72 ára afmæli hans 16. október. Fréttastofa NBC-sjónvarpsstöðvarinnar segir að það hafi verið klámmyndaleikarinn Ron Jeremy sem kom að líki Hof.

Hof kom meðal annars í fram í raunveruleikaþætti á HBO-kapalstöðinni og skrifaði bók sem hann nefndi „Listin við hórmangið“ sem vísaði til titils bókar Donalds Trump, „Listinn við samninga“. Embættismenn sýslunnar munu tilnefna annan repúblikana til að taka sæti hans á ríkisþinginu.


Tengdar fréttir

Útlit fyrir miklar deilur næstu tvö árin

Repúblikanaflokkurinn hefur bætt við nauman meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings og Demókratar hafa tryggt sér meirihluta í fulltrúadeildinni.

Fjölbreyttir frambjóðendur náðu kjöri

Samkynhneigð kona af frumbyggjaættum, múslimakonur og opinskátt samkynhneigður karlmaður voru á meðal þeirra frambjóðenda sem skráðu nöfn sín í sögubækurnar í kosningunum í Bandaríkjunum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×