Erlent

Rómarbúar mótmæla ástandinu í borginni eilífu

Andri Eysteinsson skrifar
Raggi viðurkennir að mörg vandamál hrjái Rómarborg. Hér ræðir hún um rúllustigann sem bilaði í vikunni.
Raggi viðurkennir að mörg vandamál hrjái Rómarborg. Hér ræðir hún um rúllustigann sem bilaði í vikunni. EPA/ Massimo Percossi
Nokkur þúsund manns flykktust á torgið fyrir framan ráðhús Rómar í dag til að mótmæla ástandinu í borginni. Rómarbúar segja að götur séu orðnar holóttar, sorp sé ekki hirt og að villisvín flækist víða um göturnar. Reuters greinir frá.

Gagnrýnendur segja Rómarborg hafa grotnað niður á undanförnum árum og gagnrýna borgarstjórann Virginiu Raggi fyrir að hafa ekki staðið við kosningaloforð hennar en hún tók við borgarstjórastólnum, fyrst kvenna árið 2016.

Reuters ræddi við nokkra mótmælendur og voru þeir ósáttir við ástandið og sögðust aldrei hafa séð borgina sína svona áður. Ringulreið ríkti í Róm, engin samheldni væri í samfélaginu og lögum væri ekki framfylgt.

Raggi segir stjórn hennar  vera á réttri leið en segist þurfa meiri tíma til að vinna á þeim aragrúa af vandamálum sem Róm ætti í.

Sorphirðumenn fóru í verkfall í borginni, yfir 20 strætisvagnar hafa orðið eldi að bráð á götum úti og nú síðast slösuðust tugir manna þegar rúllustigi á lestarstöð bilaði.

Ósáttir íbúar borgarinnar eilífu skipulögðu mótmælin á netinu og söfnuðust saman undir merkinu #RomaDiceBasta (Róm segir nóg komið) og létu að sögn Reuters milli 5.000 og 8.000 manns sjá sig.

Þar á meðal var Salvatore Golino sem sagði Róm vera orðna að ræsi. Rottur, refir, rusl og villisvín fylltu göturnar.

Borgarstjórinn Raggi stendur í málaferlum en hún er sökuð um valdamisnotkun, Raggi neitar sök en segist ætla að segja af sér verði hún dæmd sek.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×