„Það var ákveðin spenna fyrir þetta þing af því að það þarf að gæta ofboðslega viðkvæms jafnvægis innan ASÍ. Það þurfa allir að vera með sína fulltrúa í miðstjórn og svona ákvarðanir um hver skipar varaforsetaembættin að þær eru líka hápólitískar innan Alþýðusambandsins. Ég fagna því sérstaklega að stærstu félögin, Efling og VR, að formenn þeirra eru innan miðstjórnar. Það hefur ekki alltaf verið þannig. Stundum hefur það verið þannig að forystumenn þessara félaga hafa beinlínis tekið þá ákvörðun að sitja utan miðstjórnar ASÍ en svo er ekki núna. Það að þetta helsta forystufólk sé núna hluti af miðstjórninni auk þess sem að það er ákveðið jafnvægi á milli iðnaðarmanna, sjómenn eiga sinn fulltrúa þarna og aðrar starfsgreinar, að það gefur mér væntingar um að við getum sameinað okkur undir hatti ASÍ betur heldur en oft áður,“ segir Drífa Snædal.
„Þannig að ábyrgð stjórnvalda er gríðarleg"
Drífa var gestur í Víglínunni hjá Heimi Má Péturssyni í dag. Hún fór yfir kröfur fyrir komandi kjarasamninga og ástæður fyrir þeim.„Það hefur verið ljóst allan tímann að þessir samningar, þeim verður ekki lokað nema með feitum pakka frá stjórnvöldum ef svo má orða. Ástæður þessara krafna er að við höfum reiknað út hvað fólk þarf til að lifa. Nú ef að kerfið hefði ekki verið í átt að aukinni misskiptingu og það hefði verið tekið hérna á húsnæðismálum og öðrum samfélagsmálum í átt til jafnaðar að þá væru þessar kröfur ekki svona. Þannig að ábyrgð stjórnvalda er gríðarleg,“ segir Drífa.
Drífa fór yfir víðan völl en horfa má á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan.