Innlent

Myndbirtingar á Facebook geti bitnað á börnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Persónuvernd hvetur fólk til að fara sér hægt í myndbirtingu af grunuðum afbrotamönnum á Facebook. Með því sé þó ekki verið að hlífa glæpamönnum, heldur standa vörð um þolendur þeirra sem í sumum tilfellum eru börn.

Stofnunin birti á föstudag ábendingu á heimasíðu sinni þar sem Persónuvernd mælist til þess að fólk sýni varkárni við birtingu ljósmynda og nafna þeirra sem sakaðir hafa verið um alvarleg brot.  Það eigi meðal annars við um birtingu ljósmynda og nafna grunaðara afbrotamanna á samfélagsmiðlum.

Þó svo að Persónvernd taki ekki fram hvert tilefni ábendingarinnar er hefur fréttastofa heimildir fyrir því að stofnuninni hafi borist ábendingar um myndir sem deilt var á Facebook - af hjónum sem nú eru í gæsluvarðhaldi og eru sökuð um alvarleg brot gegn dóttur og stjúpdóttur þeirra. Meint brot hjónanna hafa vakið mikinn óhug og hafa Sandgerðingar meðal annars lýst málinu sem því ógeðslegasta í sögunni.

Börn - ekki brotamenn

Þó svo að Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, geti ekki tjáð sig um einstök mál segir hún mikilvægt að hafa í huga að myndbirtingar á samfélagsmiðlum geta í sumum tilvikum haft slæmar afleiðingar í för með sér fyrir þolendur brotanna, sem sé sérstaklega alvarlegt ef þolendur eru á barnsaldri. Með ábendingu sinni sé Persónuvernd þó ekki að halda hlífðarskildi yfir afbrotamönnum.

„Það sem þarf að hafa hugfast er að þegar umfjöllun á sér stað um alvarleg brot þá eru margar upplýsingar sem geta verið persónugreinanlegar. Það þarf að einnig að hafa í huga að eitt er það hver á skömmina í brotum og hitt er það hvern á að vernda í umfjölldun um brot,“ segir Helga. Þetta eigi sérstaklega við þegar börn tengjast eða málinu, eða eru jafnvel brotaþolar.

Helga minnir á að hver sá sem birtir upplýsingar á samfélagsmiðlum sé ábyrgur fyrir færslunni. Myndbirtingar geti þannig dregið dilk á eftir sér, brjóti þær í bága við persónuverndarlög. Hún hvetur alla, jafnt fjölmiðla sem notendur samfélagsmiðla, til að láta hagsmuni barnanna ráða för í umfjöllun sinni.

„Útgangspunktur Persónuverndar er að huga að því í allri umræðu sem börn tengjast að þau eru verndarandlagið og þau eiga að vera þungamiðjan í því hvernig fréttin eða umfjöllunin á sér stað - hjá okkur öllum,“ segir Helga Þórisdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×