Samfylkingin tapar mestu fylgi allra borgarstjórnarflokkanna samkvæmt könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið. Aðrir flokkar í meirihluta bæta hins vegar við sig eða halda í horfinu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist, líkt og í síðustu kosningum, stærstur flokka. Formaður borgarráðs og forseti borgarstjórnar fagna niðurstöðunni.
„Staða meirihlutans er sterk og það kemur í ljós í þessari könnun að kjósendur eru skynsamir,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir.
„Við Píratar erum að bæta við okkur tæplega 5% fylgi og ég tel það sýna að fólk kann að meta okkar áherslur,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík.

„Við heyrum í hins vegar fólki í baklandi þessarra flokka. Það er ekki mikil ánægja með þetta samstarf. Við erum langstærsti flokkurinn, við erum næstum því 50% stærri en Samfylkingin þannig að hlutfallslega erum við mjög sátt við það,“ segir Eyþór Laxdal Arnalds.
Fréttablaðið kannaði einnig hver ætti að axla ábyrgð á framúrkeyrslu við endurbætur og viðbyggingar braggans í Nauthólsvík. Af þeim sem tóku afstöðu taldi um þriðjungur svarenda að ábyrgðin væri borgarstjóra. Rúmlega fjórðungur taldi ábyrgðina meirihlutans.
Minnihlutinn í borgarstjórn gerir alvarlegar athugasemdir við „braggamálið“ svokallaða og fleiri mál eins og framúrkeyrslu hjá Félagsbústöðum og vegna framkvæmda við Mathöllina.
Mér finnst þetta vera byrjunin á einhverju miklu miklu dýpra og miklu miklu meira. Ég hef á tilfinningunni að það hafi verið að stinga á einhverju kýli og það bara velli út gröfturinn núna,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.
„Já, það er ýmislegt sem er að koma á yfirborðið varðandi borgina og það er margt sem þarf að laga þar,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í borginni.
Sjálfstæðismenn segja að framúrkeyrslan hlaupi á gríðarlegum fjármunum síðustu átta ár.
„Þessi þrjú verk sem hafa verið nefnt voru 800 milljónir, ef við tökum með Orkuveituhúsið og fleiri mál þá eru þetta milljarðar,“ segir Eyþór Arnalds.