Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafði vonast til að fá stuðning Evrópuleiðtoga við hina svokölluðu Chequers áætlun ríkisstjórnar hennar um samskipti við sambandið eftir útgöngu. May hefur varað við því að ef Chequers áætlunin gengur ekki eftir þurfi Bretland að ganga úr sambandinu án samkomulags.
Leiðtogar Evrópusambandsins segja áætlun May ekki fullnægjandi. Tryggja þurfi betur opin landamæri á milli Norður-Írlands og Írlands og þá grafi tillagan undan innri markaði Sambandsins. Boðað hefur verið til annars leiðtogafundar um miðjan október þar sem lokatilraun verður gerð til að komast að samkomulagi um útgöngu Bretlands. „Úrslitastundin fyrir Brexit viðræðurnar verða á leiðtogafundinum í október,“ sagði Tusk. „Í október reiknum við með hámarksárangri og niðurstöðu í viðræðunum.“

Hvað er Chequers áætlunin?
Áætlunin er kennd við sveitasetur forsætisráðherrans í Buckinghamskíri á Englandi. Þar samþykkti breska ríkisstjórnin samningsmarkmið sín um hvernig samskiptum Bretlands við Evrópusambandið verður háttað eftir útgöngu.
Meðal meginþátta sem í áætluninni er ákvæði um sameiginlegt regluverk sem tryggir stöðlun gæða á varningi og landbúnaðarvörum sem verslað er með. Þá gerir áætlunin ráð fyrir tollasamningum til að tryggja hindrunarlaus viðskipti Bretlands við Evrópusambandið en á sama tíma er Bretlandi frjálst að semja um fríverslun við önnur ríki.
Theresa May telur að áætlunin sé eina raunhæfa lausnin í stöðunni en gagnrýnendur hennar telja aðrar leiðir færar.
Vandræði heima fyrir
Leiðtogafundurinn í Salzburg veikir stöðu May enn frekar þar sem hún á fáa bandamenn heima fyrir. Stjórnarandstaðan styður ekki Chequers áætlunina og þá hefur fjöldi þingmanna í hennar eigin flokki lýst yfir andstöðu. Uppreisnarseggir í Íhaldsflokknum hvetja May til að skipta um stefnu.

May er því sniðinn ansi þröngur stakkur eftir leiðtogafundinn í Salzburg og með hverjum deginum aukast líkurnar á því að Bretar neyðist til að ganga úr sambandinu án samkomulags.